mánudagur, 9. júní 2008

Á rásinni

Þá er maður kominn í frí! Hvað er þá til ráða? Verður maður ekki að gera eitthvað merkilegt í fríi? Að vísu bjargar Evrópukeppnin í fótbolta einhverju og auk þess bíða fjöldamörg viðhaldsverkefni þess að í þau sé ráðist, veiðistengur rykfalla, veiðihjól ryðga og maður verður barasta aumur í baki af of miklum setum - og legum í sófa.
Ég hef samt haft nóg að gera við að ganga frá einhverju skýrsludóti - tók það að mér. Flestir úr kennarayfirliðinu fóru til Englands í svokallaða námsferð. En þið vitið nú eins vel og ég út á hvað slíkar ferðir ganga - við Dóra kusum að taka ekki þátt í þeirri vitleysu.
Starfsárinu lauk með glæsilegri veislu sem skólastýran okkar bauð til en síðan brunuðum við Dóra til Reykjavíkur þar sem Dóra fór í eitthvað kellingapartý - þar voru skólasystur úr Njarðvík samankomnar til að bera saman háralit og vambsídd. Ég held að þetta hafi bara verið upplyfting fyrir Dóru.
Hittum Bergrúnu auðvitað, og Andra sem sagði farir sínar ekki sléttar. Var bara illa farinn eftir líkamsárás á sínu eigin heimili. Árásaraðilinn, villt fress, náði að slasa einkasoninn - hann var allur rifinn og klóraður (ég hef bara ekki séð það verra). Hann fór sem, betur fer, á slysavarðstofuna og békk sprautu og penzilín. Annars er líðan okkar allra eftir atvikum.

Engin ummæli: